Henny María ...

Monday, June 26, 2006

Wherefore art thou, sumarfrí ?


Heyrðu þetta er bara komið gott, sumarfríið má alveg fara að koma. Veðrið er ekki beint að toga í mann þessa dagana en það er alveg ljóst að sumarfrí er bráðnauðsynlegt fyrir andlega heilsu. Ég þarf bara að þrauka í 3 vikur í viðbót, hvað er það? Allt gott að frétta hér, helgin róleg, sund og fótboltagláp. Sigurrós tjáði mér það á laugardaginn að hún væri með handahausverk og bar sig frekar illa og svo seinna um daginn var hún komin með fótahausverk, litla skinnið ! En hún var fljót að jafna sig á þessum ósköpum og er búin að vera hin hressasta svo ekki sé meira sagt þessi elska. Rigningin er komin aftur, var líka orðin ansi áhyggjufull því ég hafði ekki séð hana í 2 heila daga en það var allt í lagi með hana og hún stóð sig bara vel í dag með rokinu.

Lagið: Sia - Breathe me

Monday, June 19, 2006

hæ, hó, jibbí, jey


Jæja þá er 17 júní afstaðinn með öllu tilheyrandi, skrúðgöngu, leiktækjum, rándýrum blöðrum og klístruðu sælgæti, þá má heldur ekki gleyma rigningunni. Já, þetta var bara fjör, Sigurrós skemmti sér vel, Spiderman blaðran fór hins vegar fljótlega á fund feðra sinna en þeirri stuttu hefði ekki getað verið meira sama, ekkert drama, hún gerði sér fulla grein fyrir því að hún hafði slitið hana viljandi af bandinu og þess vegna hafi blaðran bara farið upp í geim. Palli var að vinna allan daginn við hátíðarhöldin og langt fram á kvöld, var í því að redda nælonpíunum míkrafónum og passa að það heyrðist almennilega í siggu beina og maríu björk, og bara reddaði hlutum. Það var svo haldið handboltapulsupartý hjá jonna og sirru þar sem allir horfðu spenntir á þessar elskur slá út svíana, stórkostlegt og mjög vel við hæfi á þessum degi.
Erum búin að kaupa miða á HAM, getum ekki beðið !!!

Wednesday, June 07, 2006

Donde esta la biblioteca ?

Já fjölskyldan bara á leiðinni í sólina á Spáni í ágúst þakka þér fyrir, skyndiákvörðun sem ég sé sko alls ekki eftir !! Hlakka mikið til eins og gefur að skilja :)
Hvítasunnuhelgin var skemmtileg hjá okkur, fórum á Skárastaði með Eddu, Kjartani o.co. Fórum í skoðunarferð, bökuðum lummur og pönnsur, prjónuðum og strákarnir reyndu að veiða, já haldiði að það sé myndarskapur í liðinu! Ég er alveg dottin í prjónið, búin að prjóna húfu á Sigurrós og er að gera eina fyrir Palla, verð að klára hana áður en hann fer í Albertsferðina. Já hann verður flottur með hvíta og strumpabláa húfu (röndótta) á golfvellinum, það er ég viss um.
Maður telur svo bara niður dagana þangað til við förum í sumarfríið hið fyrra, það verður líka gaman. Það held ég nú....